Kröfuhafafundur Glitnis samþykkti á fundi í dag skilyrði íslenskra stjórnvalda um stöðugleikaframlag sem og beiðni slitastjórnar Glitnis um tíu milljarða skaðleysissjóð. DV greinir frá þessu.

Þar kemur fram að á fundinum hafi verið samankomnir kröfuhafar sem eigi um 70% krafna á hendur Glitni. Ofangreind atriði hafi verið samþykkt með 98% atkvæða.

Stöðugleikaframlag Glitnis felur í sér framsal á innlendum eignum að fjárhæð 210 til 260 milljarðar króna, miðað við bókfært virði þeirra. Hvað varðar seinni tillöguna hafði slitastjórnin farið fram á að settur yrði á fót sérstakur sjóður í evrum að jafnvirði tíu milljarða króna til að tryggja slitastjórninni skaðleysi vegna hugsanlegra málsókna í tengslum við störf hennar.