Samtök leigjenda á Íslandi telja rauða þráðinn í frumvarpi húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur vera „allskonar fyrir aumingja.“ Samtökin gagnrýna tekjutengingu húsnæðisbóta. Þá telja samtökin ámælisvert að Tryggingastofnun sjái um umsýslu og greiðslu húsaleigubóta, þar sem þar með sé verið að gefa í skyn að fólk á leigumarkaði séu minna settir en aðrir.

Húsnæðisbótafrumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, var lagt fram á Alþingi í júní. Samtök leigjenda á Íslandi skiluðu umsögn sinni um frumvarpið á dögunum. Samtökin gera athugasemdir við ýmsar greinar frumvarpsins. Meðal annars telja þau að ferlið við umsókn húsaleigubóta yrði of flókið og að verið sé að leggja kröfur á fólk á leigumarkaði sem séu umfram það sem krafist er af þeim sem sækja um vaxtabætur.

Segja bæturnar renna til banka

Í almennum athugasemdum samtakanna við frumvarpið segir að með aðgerðunum sé óbeint verið að færa fé frá ríkissjóði til banka og annarra fjármálastofnana. Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr á þessu ári að það væri mat hagfræðings við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að til skemmri tíma myndi hækkun húsaleigubóta leiða til hækkunar leiguverðs, en að ef fjármagnsmarkaður væri skilvirkur ætti niðurgreiðslan þó ekki að renna beint til fjármálastofnana.

Samtök leigjenda segjast telja fjármagnið sem fer í bæturnar myndu nýtast metur með því að stofna húsaleigusamvinnufélög án hagnaðarkröfu. Þá segja samtökin að fátt í frumvarpinu endurspegli tillögur verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála.