Óvænt kapp hefur færst í baráttuna um forsetaefni demókrata á næsta ári, en samkvæmt nýrri könnun er einungis sjö prósentustiga munur á Hillary Clinton og öldungardeildarþingmanninum Bernie Sanders meðal líklegra forvalskjósenda í Iowa.

Clinton hefur lengi verið álitin allt að því örugg um tilnefningu demókrata til forseta Bandaríkjanna, en eftir því sem hiti færist í kosningabaráttuna hefur það verið að breytast . Hún hefur lent í vandræðum í tengslum við notkun sína á óöruggu tölvupósthólfi, þar sem hún sýslaði með háleynilegar upplýsingar. Sanders skilgreinir sig sem sósíalista og hefur barist gegn ójöfnuði og fyrir hærri sköttum á ríkt fólk.

37% velja Clinton, en 30% Sanders

Iowa er það ríki Bandaríkjanna þar sem fyrstu forvalskosningarnar fara fram og er því talið veita mikilvægar vísbendingar um gengi frambjóðenda á landsvísu. Samkvæmt nýrri könnun Bloomberg er Hillary Clinton fyrsta val hjá 37 prósentum kjósenda, en 30 prósent kjósenda myndu velja Bernie Sanders.

Þá myndu 14 prósent kjósenda velja Joe Biden. Hann hefur ekki enn tilkynnt hvort hann hyggist bjóða sig fram, en könnun Bloomberg bendir til þess að ef hann geri það ekki myndu 43 prósent kjósenda velja Clinton og 35 prósent Sanders. Öryggisbilið í könnuninni eru 4,9 prósentustig.

Til marks um aukinn klofning

Gengi Clinton í könnunum í Iowa hefur hrakað þrátt fyrir að hún hafi auglýst langmest allra frambjóðenda í fylkinu. Síðasta mánuðinn hefur hún auglýst tvöfalt meira en allir aðrir frambjóðendur repúblikana samanlagt, og enginn annar frambjóðandi demókrata auglýsti yfir höfuð í Iowa.

Velgengni Sanders og ekki síður repúbíkanans Donalds Trump í forvalsbaráttunni er talið til marks um aukinn klofning í stjórnmálunum vestanhafs og minna þol gagnvart hefðbundnum stjórnmálamönnum þar í landi. Engu að síður voru aðeins 2 prósent stuðningsmanna Sanders sem sögðust styðja hann fyrst og fremst vegna andúðar á Clinton.