Bernie Sanders, keppinautur Hillary Clinton um útnefningu Demókrata sem forsetaefni flokksins, segir að formaður flokksins, Debbie Wasserman verði að víkja sæti. Segir hann nýlega lekin email samskipti helstu stjórnarmanna í flokknum sem sýni að hún og aðrir starfsmenn hans hafi unnið gegn framboði hans, undirstrika þá skoðun sína sem hann hafi haft lengi.

Ömurlegir tölvupóstar

"Ég held hún sé ekki hæf til að vera formaður stjórnar flokksins, ekki bara vegna þessara ömurlegu tölvupósta, sem sýna fordóma stjórnarinnar, heldur einnig vegna þess að við þurfum flokk sem nær til ungs fólks og vinnandi fólks, og ég held að stjórnunarstíll hennar geri það ekki," sagði Sanders. í sjónvarpsþættinum State of the Union.

Á landsþingi Demókrata sem hefst á morgun mun Hillary Clinton taka formlega við útnefningunni eftir að hafa sigrað Sanders í forkosningum flokksins. Debbie Wasserman sem átti að vera fundarstjóri landsþingsins mun einungis setja þingið og slíta því í kjölfar lekans.

Áætlun um að ráðast á trúarskoðanir Sanders

Meðal þess sem kom fram í tölvupóstunum var að ætlun starfsmanna var að tryggja að spurt yrði út í trú hans meðan á kappræðum í Kentucky og West Virginia stæði.

"Ég er ekki trúleysingi," sagði Sanders. "En fyrir utan allt það mál, þá er það fortakslaust og sorglegt að það sé fólk í mikilvægum stöðum sem starfa fyrir flokkinn að reyna að grafa undan kosningabaráttu minni. Það á ekki að þurfa að taka það fram, að hlutverk stjórnar flokksins er að vera fulltrúar allra frambjóðenda, að vera hlutlausir og sanngjarnir."

Jafnframt segir hann þó að þessar uppljóstranir komi honum ekki á óvart, hann hafi rætt þetta fyrir mörgum mánuðum.