Samkvæmt nýrri könnun nýtur Bernie Sanders meira fylgis meðal kjósenda í Iowa en Hillary Clinton og er það í fyrsta skipti sem Sanders tekur fram úr Clinton í skoðanakönnunum meðal kjósenda í ríkinu. Fyrir nokkrum dögum tók hann fram úr Clinton í könnun meðal kjósenda í New Hampshire, en forkosningar í ríkjunum tveimur skipta töluverðu máli í forvali flokkanna tveggja í Bandaríkjunum því þetta eru þau ríki sem fyrst greiða atkvæði um frambjóðendur.

Samkvæmt könnun Quinnipiac háskólans mælist Sanders með 41% fylgi meðal kjósenda í Iowa, en Clinton er með 40% fylgi. Munurinn er innan skekkjumarka, en niðurstaðan bendir sterklega til þess að verulega sé farið að saxast á forskot Clinton í forkosningunum, sérstaklega þegar könnunin í New Hampshire er tekin með í reikninginn. Í síðustu könnun sem Quinnipiac háskólinn gerði í Iowa mældist Clinton með 52% fylgi og Sanders með 33%.

Engu að síður nýtur Clinton töluvert meira fylgis en Sanders þegar kannanir eru gerðar meðal kjósenda á landsvísu. Fari svo að hún verði undir í kosningunum í Iowa og New Hampshire gæti hún náð sér á strik aftur takist henni að vinna örugga sigra í næstu ríkjum þar á eftir, en hún forskot hennar í Suður-Karólínu og Flórída er mjög rúmt.