Hugbúnaðarrisinn SAP hefur valið Applicon nýsköpunarfyrirtæki ársins meðal samstarfsaðila í Svíþjóð segir í fréttatilkynningu frá Nýherja, en félagið er dótturfélag þess.

„SAP, sem er með 335 þúsund starfsmenn og starfar í 130 löndum, veitir farsælustu samstarfsaðilum sínum verðlaun fyrir góðan árangur í hverju landi fyrir sig ár hvert, þar á meðal fyrir nýsköpun SAP lausna," segir í tilkynningunni.

„Applicon í Svíþjóð hlýtur viðurkenninguna SAP Innovation Partner of the Year fyrir sérþekkingu á hugbúnaðarlausnum fyrir banka, skilning á þeim áskorunum sem fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir í þróun á stafrænum lausnum og að laða til sín nýja viðskiptavini á þessu sviði.

Fram kemur í tilkynningu SAP að ráðgjafar Applicon hafi sýnt mikla fagmennsku og djúpa þekkingu á sérstökum þörfum og reglum fjármálageirans sem leitt hafa til mikillar ánægju viðskiptavina Applicon.

Applicon félög Nýherja eru tvö, Applicon á Íslandi og Applicon í Svíþjóð. Þau leggja áherslu á sölu og þjónustu á SAP og þróun á eigin lausnum. Rúmlega 100 manns starfa hjá félögunum."