Lengi vel hafa þotur SAS flogið hingað frá Ósló allt árið um kring og í hittifyrra bætti félagið við áætlunarflugi frá Kaupmannahöfn. Forsvarsmenn flugfélagsins sjá tækifæri í auknu Íslandsflugi því í júlí og ágúst mun SAS bjóða upp á tvær ferðir á dag til Íslands frá Kastrup alla þriðjudag, fimmtudag og sunnudaga.

Auk þess bætist við beint flug frá Stokkhólmi tvisvar í viku yfir hásumarið samkvæmt svari frá Mariam Skovfoged, talsmanni SAS, við fyrirspurn vefsíðunnar Túrista . Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá , hefur Wow air ákveðið að fækka flugvélum úr 22 í 11 og segja upp fólki, en breytingarnar taka gildi í janúar á næsta ári. Áður hafði félagið sagt frá því að vélunum yrði fækkað um 4 .

Með þessari viðbót hjá SAS stefnir í að farþegar á Keflavíkurflugvelli hafi val á milli 8 áætlunarferða á dag til Kaupmannahafnar. Þotur Icelandair munu nefnilega fljúga þangað fimm sinnum á dag, líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku, og hjá WOW eru 12 ferðir í viku á dagskrá. Við þetta bætast svo 10 vikulegar ferðir hjá SAS.