*

þriðjudagur, 26. mars 2019
Innlent 13. mars 2018 11:04

Sátt kostar Reiti 230 milljónir

Fasteignafélagið hefur náð samkomulagi við lánardrottna vegna deilna um vexti og skaðabótakröfur.

Ritstjórn
Verslunarmiðstöðin Kringlan í Reykjavík er ein þekktasta eign Reita.
Aðsend mynd

Fasteignafélagið Reitir hefur náð samkomulagi við erlenda lánardrottna um uppgjör þriggja lána sem ágreiningur hefur verið um uppgreiðslu á. Greiðir félagið 230 milljónir króna til lánardrottnanna sem færðir verða til gjalda á 1. ársfjórðungi þessa árs. Samhliða losnar um 1 milljarða króna veðbönd og veð í fasteignum og hlutafé í dótturfélögum tengdum lánveitingunum.

Er ágreiningurinn rakinn til uppnáms vegna gjaldeyrishafta en í ársreikningi félagsins er sagt að tvö lán hafi verið greidd upp í október 2014 sem og að höfuðstóll þriðja lánsins hafi verið greiddur upp við afléttingu gjaldeyrishaftanna í mars 2017.

Í ársreikningi segist félagið telja að þar með séu allir þrír lánasamningarnir séu þar með fallnir úr gildi, en eftir standi kröfur erlenda bankans um vexti og dráttarvexti. Ágreiningurinn hafi staðið um útreikning þeirra auk útlagðs kostnaðar, en samkvæmt tilkynningu félagsins til kauphallarinnar hefur nú náðst samkomulag um greiðslurnar.

Vegna rannsóknar Seðlabankans frá árinu 2013

Hinn erlendi lánveitandi hafði frá uppgreiðslu lánanna tveggja á árinu 2014 áskilið sér rétt til að koma að auki fram með kröfu vegna meints aukins kostnaðar í tengslum við tafir á greiðslu afborgana á lánunum öllum á árunum 2013 og 2014 vegna rannsóknar Seðlabankans sem lauk með sátt á árinu 2013. 

Slík krafa hafi þó ekki verið sett fram með formlegum hætti af hálfu bankans og óvíst er um umfang hennar ef af yrði segir jafnframt í ársreikningnum. 

Í tilkynningunni nú segir félagið að öll mál milli Reita og lánveitandans séu nú uppgerð, þar með talið kostnaður vegna bótakrafna. Samhliða samkomulaginu losar hinn erlendi lánveitandi um veðbönd af bundnu fé sem nemur rúmum einum milljarði króna, og um öll veð í fasteignum og hlutafé í dótturfélögum þessum lánum tengt.

Stikkorð: Reitir samkomulag kröfur lánadrottnar