Árið 2013 hófst gjaldtaka við Kerið, sem er fjölsóttur ferðamannastaður í Grímsnesi á Suðurlandi. Ókeypis er að skoða Kerið fyrir börn undir tólf ára aldri. Í umfjöllun Fréttablaðsins um gjaldtöku í Kerinu kemur fram að Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur talað fyrir aukinni gjaldtöku í ferðaþjónustu í stað þess að hækka virðisaukaskatt á hana.

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að samtökin hafi ekki skoðað gjaldtökuna sérstaklega við Kerið. „En við höfum lagt áherslu á að ef menn ætla að stofna til gjaldtöku þá sé það fyrir virðisaukandi þjónustu, að þar sé aðstaða sem sé verið að rukka fyrir ekki bara að horfa á náttúruna,“ segir Grímur í samtali við Fréttablaðið.

Blaðið ræddi við nokkra ferðamenn við Kerið og almennt voru ferðamennirnir sáttir við gjaldtökuna, og þá sér í lagi uppbygginguna á svæðinu. Þó þótti flestum Ísland dýr áfangastaður, þrátt fyrir að hafa verið vöruð við kostnaðnum sem fylgdi því að koma til Íslands. Ef litið er yfir svör ferðamannanna, eru flestir á því að verðið sé: „Sanngjarnt“.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um þá eru þær Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála og Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri, Samtaka ferðaþjónustunnar, ekki sammála um hvort að gjaldtaka við kerið í Grímsnesi sé til eftirbreytni. Þórdís Kolbrún hefur í viðtali við Viðskiptablaðið minnst á það að gjaldtaka á ferðamannastöðum hafi gengið ágætlega og hefur til að mynda minnst sérstaklega á Kerið í því samhengi.

Hins vegar leggur Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, áherslu á að samtökin hafi talað fyrir gjaldtöku fyrir virðisaukandi þjónustu , til að mynda bílastæðagjöld og gjald fyrir salerni.