Ljóst er að ágreiningur er á meðal nefndarmanna í stjórnarskrárnefnd um það hversu miklar breytingar á að gera á íslensku stjórnarskránni. Á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu fyrr í dag var 1. áfangaskýrsla stjórnarskrárnefndar til umræðu. Í skýrslunni eru dregin saman álitaefni um þjóðaratkvæðagreiðslu, eign ríkisins á auðlindum, ákvæði um umhverfisvernd og framsal á ríkisvaldi til alþjóðasamtaka.

Skúli Magnússon, sem er fulltrúi Framsóknarflokks í stjórnarskrárnefnd, segist sjá fyrir sér eina mestu breytingu á íslenskri stjórnarskrá frá upphafi verði ókynntar tillögur nefndarinnar að veruleika. „Nefndin hefur metið það sem svo að það sé þörf á breytingum um öll þessi atriði,“ segir Skúli. Undir þetta sjónarmið tekur Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra. „Breytt þjóðfélag kallar á breytingar á stjórnarskrá," segir Jón.

Aðalheiður Ámundadóttir, fulltrúi Pírata, tekur i sama streng og segist gjarnan vilja að stjórnarskráin verði endurskoðuð í heild sinni. Katrín Jakobsdóttir, fulltrúi Vinstri Grænna, er einnig fylgjandi því að stórtækar breytingar verði gerðar á stjórnarskránni. Hún telur ekki hægt að líta fram hjá niðurstöðum kosninga um tillögur stjórnlagaráðs í október 2012.

Þessu viðhorfi er Sigurður Líndal, formaður nefndarinnar, hinsvegar ósammála. „Stjórnarskrá á að vera stöðug. Bandaríkin hafa stjórnarskrá frá árinu 1787 og Norðmenn frá 1814,“ segir Sigurður. Ráðgert er að tillögur nefndarinnar verði grundvöllur að breytingum á stjórnarskrá fyrir lok þessa kjörtímabils.