Sears Holding, félagið sem rekur hinar þekktu fatakeðjur Sears í Bandaríkjunum hefur óskað eftir greiðslustöðvun. Félagið rekur einnig Kmart verslanirnar. Gjaldþrotabeiðnin kom fram í morgun áður en félagið þurfti að borga um 134 milljón dali í lán seinna í dag.

Hið 125 ára gamla félag hefur þó náð samkomulagi við lánveitendur sínar sem gerir því kleyft að halda áfram úti hundruðum verslana í bili. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á miðvikudaginn hefur hlutabréfaverð félagsins hrunið síðan það tilkynnti um að undirbúningur fyrir gjaldþrotaskipti væri hafinn en félagið hefur átt undir högg að sækja í samkeppninni við Amazon.

Stærsti eigandi félagsins, Edward Lampert, hefur hætt sem framkvæmdastjóri en hann mun áfram sitja sem stjórnarformaður félagsins. Síðan hann náði undirtökum í félaginu árið 2005 með sameiningu Kmart við Sears hefur hann lokað hundruðum verslana en samt hefur það haldið áfram að vera rekið með tapi.

Stærstu skuldirnar vegna lífeyrisgreiðslna

Félagið hefur þegar tilkynnt að 142 verslunum til viðbótar verði lokað fyrir lok árs og rýmingarútsölur hefjist þar fljótlega. Það kemur til viðbótar við 46 verslanir sem búist er við að loki í næsta mánuði. Í dag rekur félagið um 700 Sears og Kmart verslanir en hjá því starfa um 70 þúsund manns.

Fjárfestingarsjóður Lambert, ESL Investments er með til skoðunar að leggja inn 300 milljón dali í félagið en það er jafnframt að skoða að kaupa út stóran hluta verslana þess í gjaldþrotaskiptunum. Lambert er sagður hafa trú á því að hægt sé að endurskipuleggja félagið í kringum 300 hagkvæmustu verslanir félagsins.

Eignir félagsins eru metnar á milli 1 til 10 milljarða dala en skuldirnar eru yfir 10 milljarða. Þar af er stærsti lánardrottinn félagsins tryggingafélag lífeyrisskuldbindinga í eigu ríkisins, The Pension Benefit Guaranty Corp.

Byggði hæsta turn heims

Félagið byggði í sögu sinni m.a. annars hæstu byggingu heims á sínum tíma, Sears tower í Chicago árið 1973, en það var stofnað af Richard W. Sears og Alvah C. Roebuck árið 1891. Seldi félagið lengi vel allt frá fötum til heimilistækja og um tíma jafnvel bíla að því er WSJ segir frá.

Einnig framleiddi það verkfæri frá árinu 1927 undir vörumerkinu Craftsman, en línan var seld til Stanley Black & Decker árið 2017 sem og kreditkort, sem félagið kynnti til sögunnar á 5. áratug síðustu aldar en seldi til Citigroup árið 2003 fyrir 3 milljarða dala.