Gengi hlutabréfa í Nordea, sem er stærsti banki Norðurlanda, hækkaði mikið í gær í kjölfar fregna um að Skandinaviske Enskilda Banken (SEB) hefði hug á að bjóða í fimmtungshlut sænska ríkisins í bankanum. Á tímabili hafði gengið hækkað um hátt í sextán prósent og hafði þá aldrei verið hærri. Gengi hlutabréfa í finnska tryggingafélaginu Sampo, sem Exista á um fimmtungshlut í, hækkaði einnig en félagið á tæplega sex prósent í Nordea.

Í frétt sænska dagblaðsins Dagens Industri, sem birtist í gær, kemur fram að SEB sé reiðbúið að reiða fram 71 milljarð sænskra króna, sem felur í sér markaðsverðmæti upp á 138 sænskar krónur á hlut. Gengi bréfa Nordea var 103,1 sænsk króna á hlut við lok markaðarins á miðvikudag og því er um 34% yfirverð að ræða. Þegar gengi bréfa Nordea fór sem hæst í gær fór það í 119,3 sænskar krónur á hlut.

Í kjölfar þess að ríkisstjórn Frederik Reinfeldt lýsti því yfir að hún myndi selja hlut sinn í Nordea vöknuðu miklar vangaveltur um hvort að salan yrði til þess hrinda af stað margboðaðri samrunahrinu á norræna fjármálamarkaðnum. Frá og með þeim tíma hafa margar fjármálastofnanir verið orðaðar við Nordea, þeirra á meðal Sampo, en sérfræðingar telja líklegast að SEB muni kaupa hlutinn. Þar sem báðir bankarnir séu sænskir muni samruni þeirra tryggja sænska ríkinu skattstofn til frambúðar, auk þess sem sérfræðingar telja samlegðaráhrif sameiningar þeirra mikil.

Í frétt Viðskiptablaðsins í mars síðastliðnum er haft eftir Jacob Wallenberg, stjórnarformanni Investor, sem er stærsti hluthafi SEB og fer með 18,1% atkvæða, að bankarnir tveir gætu átt góða samleið. Jafnframt kom fram sú skoðun Lars G. Nordström, fyrrverandi stjórnarformanns Nordea, að sameining bankanna væri skynsamleg.

Í haust fjallaði Dow Jones um mögulegt samrunaferli á norræna fjármálamarkaðnum. Í þeirri umfjöllun kom meðal annars fram að bankarnir tveir féllu afar vel saman út frá viðskipta- og landfræðilegum sjónarhornum: Sterk staða SEB í Svíþjóð og í Eystrasaltslöndunum félli vel að breiðari áherslum Nordea á norræna markaðinum og áherslu hans á viðskiptabankastarfsemi. Haft er eftir Andreas Hakansson, sérfræðingi hjá UBS, að samlegðaráhrif slíkrar sameiningar geti skilað 10,5% sparnaði í rekstrarkostnaði og aukið hagnað á hlut um 12%. Samkvæmt greiningu UBS myndi sameinaður SEB-Nordea banki hafa markaðsverðmæti upp á 62 milljarða Bandaríkjadala og því verða litlu minni en tíundi stærsti banki Evrópu.