Ómar Svavarsson, forstjóri Securitas, afhenti í gær Regínu Magnúsdóttur, formanni Umhyggju, jólagjöf til félagsins að andvirði kr. 500.000,-. Ástæða jólagjafarinnar er sú að fyrirtækið ákvað í sameiningu við viðskiptavini sína að styrkja gott málefni fyrir hátíðirnar. Eftir kosningu á meðal starfsfólks Securitas og viðskiptavina fyrirtækisins varð Umhyggja fyrir valinu en félagið vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Securitas greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

„Langveiki barna fer ekki í manngreinarálit og við getum öll lent í því að þurfa á stuðningi að halda eða sýna fólki sem okkur þykir vænt um stuðning. Umhyggja hefur unnið öflugt starf og er félagið vel að þessari gjöf komið og vona ég innilega að hún nýtist vel, segir Ómar,".

Umhyggja býður foreldrum langveikra barna meðal annars upp á fría sálfræðiþjónustu og gefur út Umhyggjublaðið tvisvar á ári. Regína segir gjöfina koma sér mjög vel til að efla starfið enn frekar.

„Það er ekki sjálfsagt að fá gjöf sem þessa, við erum afskaplega þakklát og munum nota upphæðina í eitthvað þarft fyrir okkar félaga".