Seðlabanki Íslands hefur hvatt starfsfólk til að velja vistvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta til og frá vinnu. Í þeim tilgangi hefur verið gerður sérstakur samgöngusamningur við þá starfsmenn sem vilja. Nú þegar hafa 29 starfsmenn bankans gert svona samgöngusamning, en samgöngustefna fyrir starfsmenn bankans var kynnt 8. maí 2012.

Samkvæmt frétt á vef bankans felst samningurinn í því að starfsmenn mæta ekki á eigin bíl til vinnu, heldur ganga, hjóla eða fara með strætisvagni í vinnuna og fá þá dálítið framlag upp í kostnað. Með þessu vill Seðlabankinn leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi borgarbúa með minni umferð og minni þörf fyrir bílastæði, en bæta um leið heilsu starfsfólks, sýna gott fordæmi og efla vitund fólks um vistvænar samgöngur.

Strax í upphafi tóku tveir tugir starfsmanna þátt í þessu átaki, en nú hefur þeim fjölgað um tæplega helming og er þá fimmtungur starfsmanna sem tekur þátt í átakinu. Ennfremur geta þeir starfsmenn sem þurfa að fara á fundi utan bankans fengið til þess strætómiða eða farið á öðru af tveimur reiðhjólum sem bankinn hefur nú yfir að ráða.