Seðlabankar hafa ekki verið jafn stórtækir á markaði með gull í meira en hálfa öld, að því er kemur fram í frétt Financial Times , en samtals festu þeir kaup á gulli fyrir 27 milljarða dollara á síðasta ári. Stærstu kaupendurnir voru seðlabankar Rússlands, Tyrklands og Kazakhstan en fjárfestinginn er liður í því að færa gjaldeyrisforða landanna úr bandarískum dollar yfir í eðalmálminn.

Financial Times segir vaxandi óvissu á alþjóðaviðskiptum og þjóðhagslegu umhverfi, en tollar, viðskiptaþvinganir og deilur fyrir dómstólum, hafa í auknum mæli sett svip sinn á samskipti á alþjóðlegum vettvangi. Fyrir vikið hefur hlutdeild dollars í gjaldeyrisforða seðlabanka heimsins farið minnkandi og síðastliðið haust tilkynnti Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn að hlutdeildin hafi ekki verið minni í fimm ár.

Þessi stefnubreyting seðlabankanna hefur eðlilega haft mikil áhrif á verðmyndun á markaði með gull. Áhrifin voru sér í lagi mikil á síðari helmingi ársins 2018 og til dagsins í dag en á þriðjudaginn sl. hækkaði verð á gulli upp í 1.314 dollar og hefur ekki verið hærra í átta mánuði.

Nettó fjárfesting seðlabanka á síðasta ári í gulli nam rúmum 650 tonnum en skv. Financial Times hafa seðlabankar heimsins ekki verið jafnstórtækir í kaupum á gulli síðan 1971 þegar gullfótinum var kippt undan bandaríska dollaranum, en þá var gullverði haldið föstu og var 35 dollar.