Eftir hrun hóf Seðlabanki Bandaríkjanna gríðarleg uppkaup skuldabréfa, í viðleitni sinni til að lækka vexti og hækka eignaverð aftur eftir gríðarlegt verðfall þeirra. Heildareignir seðlabankans þegar upp var staðið námu um 4,5 þúsund milljörðum bandaríkjadala, eða um 480 þúsund milljörðum íslenskra króna, sem samsvarar um 188-faldri landsframleiðslu íslands, eða um 6% af samanlagðri landsframleiðslu heimsins alls.

Aðgerðirnar voru umdeildar á sínum tíma, og ollu töluverðri óvissu á mörkuðum, þar sem þær höfðu aldrei verið reyndar af þessari stærðargráðu áður.

Á síðasta ári hóf seðlabankinn svo hægt og rólega að minnka eignasafnið aftur, með því einfaldlega að halda eftir uppgreiðslu bréfa sem komu á gjalddaga, frekar en að endurfjárfesta upphæðinni eins og áður hafði verið gert, og viðhalda þar með stærð safnsins. Til stóð að árið 2020 yrði safnið komið niður í um 3 þúsund milljarð dollara, en ekki var tekið fram hversu lengi safninu yrði leyft að minnka. Ferlið hefur hingað til gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig og ekki valdið teljandi ókyrrð á eignamörkuðum.

Það sem af er árinu hefur þróun á skammtíma-peningamarkaði hinsvegar verið í átt að hærri vöxtum, sem gefur til kynna mögulega lausafjárþurrð, segir í umfjöllun Wall Street Journal . Í kjölfarið hafa nú vaknað spurningar um hvort bankinn ætti að hætta að minnka við sig, og jafnvel halda eignasafninu nálægt núverandi stærð, í stað þess að stefna að jafnt og þétt minnkandi safni, eins og áður stóð til.

Slík ákvörðun myndi marka mikil kaflaskil í peningastefnu seðlabankans, og eflaust myndu margir af seðlabönkum heimsins íhuga að feta sömu braut. Háttsettir embættismenn innan seðlabankans stíga því mjög varlega til jarðar og málið virðist enn vera á umræðustigi.