Seðlabanki Evrópu ákvað á fundi sínum í hádeginu að taka til róttækra aðgerða til að reyna að örva efnahag evrusvæðisins.

Bankinn lækkaði stýrivexti úr 0,05% niður í núll prósent. Innlánsvextir bankans voru neikvæðir um 0,3% en eftir ákvörðun seðlabankans verða þeir neikvæðir um 0,4%. Bankinn ákvað einnig að auka við skuldabréfakaup bankans, en hann mun nú kaupa skuldabréf fyrir 80 milljarða evra í mánuði, í stað 60 milljarða evra.

Bankinn tilkynnti jafnframt að auka við lánalínur til banka og að hann myndi víkka út heimildir bankans til skuldabréfakaupa þannig að þau nái einnig til skuldabréfa fyrirtækja í fjárfestingarflokki.

Hlutabréfmarkaðir hafa almennt tekið vel í aðgerðirnar. Stoxx 600 hækkaði um 2,17, DAX í Þýskalandi hækkaði um 2,44% og CAC 40 í Frakklandi hækkaði um 2,28%. Greiningaraðilar hafa almennt metið aðgerðir seðlabankans stórtækar og umfram væntingar markaða.

Mario Draghi, seðlabankastjóri mun kynna aðgerðirnar frekar í ræðu seinna í dag.