Stjórnarskrárdómstóll Þýskalands dæmdi í morgun að Seðlabanki Evrópu mætti kaupa skuldabréf aðildarþjóða sambandsins, með ákveðnum fyrirvörum þó.

Bjargaði evrusvæðinu

Með dómnum var síðustu hindruninni í vegi fyrir að heimildin væri nýtt, en henni er þakkað að hafa temprað áhyggjur markaðarins um yfirvofandi hrun evrusvæðisins þegar þær stóðu sem hæst 2012, þó hefur heimildin aldrei verið nýtt. Ef hún færi að ákveðnum takmörkunum og myndi ekki fara framúr fjármálaheimildum þýska þingsins er seðlabankanum nú heimilt að kaupa skammtímaskuldir ríkisstjórna til að vega uppá móti miklum hækkunum í lánskostnaði skuldsetinna aðildarríkja.

Lagadeilurnar sem staðið hafa nú yfir í fjögur ár lauk með þessum dómi. Um 37.000 þýskir háskólamenn, stjórnmálamenn og aðilar í viðskiptalífinu höfðu lýst yfir andstöðu við aðgerðirnar og sagt þær brjóta í bága við þýska alríkislöggjöf sem bannaði fjármögnun annarra ríkja sambandsins. Evrópudómstóllinn dæmdi fyrir ári síðan að aðgerðirnar væru í samræmi við ESB samninga.

Áhyggjur vegna mögulegrar útgöngu Bretlands úr ESB

Áhyggjur voru uppi um að ef dómstóllinn hefði dæmt gegn heimildinni hefði það haft áhrif á markaði nokkrum dögum fyrir aðildarkosningar Breta að sambandinu sem verða á fimmtudag. Þar sem Seðlabankinn hefur ekki haft aðgang að þessari heimild hefur hann nýtt sér svokallaða magnbundna íhlutun (e.quantitative easing) til að kaupa upp ríkis-, fyrirtækja- og eignabundin skuldabréf meðal allra aðildarþjóðanna til að reyna að ýta við hagvexti og verðbólgu á evrusvæðinu.

Carsten Brzeski hjá ING sagði að niðurstaða dómstólsins hefði mögulega getað hrist upp í stoðum Evrópusambandsins, eða að minnsta kosti evrusvæðisins en sem betur fer hefði hann ekki gert það.