Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,25%. Í ágúst var ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5%.

Næsti vaxtaákvörðunardagur verður 16. nóvember og næsti eftir það 14. desember.

Kröftugur hagvöxtur

Seðlabankinn gerir áfram ráð fyrir miklum hagvexti og benda nýjustu vísbendingar til að hann verði jafnvel kröftugri en gert var ráð fyrir. Bankinn tekur einnig fram að þrátt fyrir miklar launahækkanir og öran vöxt eftirspurnar þá haldist verðbólga undir markmiði um tveggja og hálfs árs skeið.

Viðskiptakjarabati, lítil alþjóðleg verðbólga, aðhaldssöm peningastefna og hækkun gengis krónu, þrátt fyrir töluverð gjaldeyriskaup Seðlabankans, hafa vegið á móti áhrifum launahækkana á verðbólgu segir í tilkynningu bankans.

Mistök Hagstofunnar spila inn í

Seðlabankinn bendir á að í september hafi verðbólga mælst 1,8% og hafi því aukist töluvert frá fyrri mánuði. Að hluta til þá endurspegli það leiðréttingu á skekkju í verðbólgumælingum Hagstofu Íslands á tímabilinu mars til ágúst. Því er ofspá Seðlabankans á verðbólgu fram eftir ári minni en áður var talið. Verðbólguhorfur hafa þó lítillega breyst frá spá bankans í ágúst enda hefur gengi krónunnar hækkað enn frekar og verðbólguvæntingar eru enn undir verðbólgumarkmiði.

Að lokum segir í tilkynningu Seðlabanka Íslands að líkur séu á vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum og óvissa í tengslum við losun fjármagnshafta kalla á varfærni við ákvörðun vaxta. Því ráðist aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum af efnahagsþróuninni og því hvernig tekst til við losun hafta.