*

föstudagur, 20. október 2017
Erlent 5. júlí 2012 17:26

Seðlabanki Kína lækkar vexti

Seðlabanki Kína, Evrópu og Danmerkur hafa allir lækkað stýrivexti.

Ritstjórn
Associated Press

Kínverski seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti í annað sinn á tveimur mánuðum. Lánavextir verða 6% í stað 6,31% áður og innlánsvextir lækka úr 3,25% í 3%. Fyrir fyrri lækkunina sem bankinn gerði í júní hafði bankinn ekki lækkað stýrivexti síðan árið 2008. Með aðgerðunum vill seðlabankinn bregðast við samdrætti í efnahag landsins. Viðskiptavefur BBC greinir frá ákvörðun bankans í dag.

Evrópski Seðlabankinn og sá danski tilkynntu einnig í dag um lækkun á stýrivöxtum. Í Evrópu nam lækkunin 0,25 prósentum. Stýrivextir á svæðinu eru nú 0,75% og hafa aldrei verið lægri.

Seðlabanki Danmerkur lækkaði einnig vexti. Eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag eru innlánsvextir nú í fyrsta sinn komnir niður fyrir núll. Ástæða fyrir lækkun þar í landi er sögð sú að bankinn vill hægja á fjármagnsflæði til landsins. Í ljósi erfiðleika í Suður Evrópu þá hefur Danmörk þótt nokkuð öruggur staður til að geyma fjármuni á.