Seðlabanki Tyrklands hefur heitið því að grípa til aðgerða eftir að nýjar tölur, sem birtar voru í dag, sýndu að verðbólga mælist nú 17,9%, og hefur ekki verið jafn há í 15 ár.

Þess er nú vænst að á stýrivaxtaákvörðunarfundi á fimmtudag í næstu viku verði stýrivextir hækkaðir, en greinendur spyrja sig þó hversu langt seðlabankinn geti gengið veg stýrivaxtahækkana í óþökk forseta landsins, Recep Tayyip Erdogan.

Erdogan hefur lýst yfir andstöðu sinni við háa stýrivexti opinberlega, en hann fékk í júlí vald til að skipa seðlabankastjóra og peningastefnunefnd.

Þeir liðir sem hækkuðu mest voru orku- og flutningskostnaður, vegna mikils gengisfalls tyrknesku lírunnar.

Piotr Matys, hagfræðingur hjá hollenska bankanum Rabobank, sagði í samtali við Wall Street Journal að að þeirra mati ætti seðlabankinn að koma markaðnum á óvart með að minnsta kosti 10% vaxtahækkun. „Hinsvegar er, eins og alltaf, reginmunur á því sem seðlabankinn ætti að gera, og hvers hann er megnugur gagnvart andúð háttsettra tyrkneskra embættismanna á vaxtahækkunum.“