Seðlabankinn greip inn á gjaldeyrismarkaðinn í dag í annan viðskiptadaginn í röð, með kaupum á krónum til að halda aftur af veikingu krónunnar. Seðlabankinn greip einnig inn í markaðinn á föstudaginn með kaupum á krónum.

Viðskiptin kunna að vera til marks um ákveðna stefnubreytingu hjá bankanum þar sem hann hefur gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn eftir innan við 1% veikingu krónunnar bæði á föstudag og í dag. Gjaldeyrisinngrip bankans í haust og byrjun vetrar voru gerð eftir meiri sveiflu á gengi krónunnar innan dagsins.

Eftir 5% styrkingu krónunnar gagnvart evru á síðustu tveimur vikum síðasta árs hefur krónan veikst undanfarna daga. Krónan féll um 0,75% gagnvart evru í dag og hefur veikst um 1,5% frá áramótum gagnvart evru.

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs spyr á Twitter hvort um sóun á gjaldeyri sé að ræða að kaupa krónur eftir svo litla sveiflu á gengi krónunnar.