„Gagnvart okkur lék Seðlabankinn tveim skjöldum og sýndi af sér dæmalausa hegðan. Það kemur mér því ekki sérstaklega á óvart að hann hafi goldið í réttarsölum fyrir atlögu sína að Samherja,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, um málaferli Seðlabankans á hendur Vinnslustöðinni.

Greinargerð VSV um málið hefur verið birt á vef félagsins. Samherji hefur sömuleiðis fjallað ítarlega um mál Seðlabankans á hendur því félagi, nú síðast með opnu bréfi Garðars Gíslasonar lögmanns Samherja til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Sigurgeir Brynjar segir í sinni greinargerð þessi tvö mál hafa verið „að nokkru leyti samstofna“, en ekkert hafi orðið úr málaferlum á hendur Vinnslustöðinni. Sérstakur saksóknari hafi síðar upplýst Vinnslustöðina um að „ekkert hafi verið aðhafst til rannsóknar í kærumálinu sem tengdist VSV, enda ekkert óeðlilegt í gangi.“

Sigurgeir fullyrðir ennfremur að í þessu máli hafi legið „skýrir og greinilegir þræðir þvers og kruss á milli Seðlabankans, ríkisstjórnarinnar og Kastljóss RÚV. Megna pólitíska myglulykt lagði af þessu samráðsferli þá og leggur enn.“

Þá segir hann að „atgangur þáverandi minnihlutaeigenda í félaginu, með Guðmund Kristjánsson og Magnús Helga fremsta í flokki,“ kunni að hafa „stuðlað að því að leiða Seðlabankann á villigötur.“

[email protected]