Seðlabanki Íslands hóf að kaupa íslenskar krónur á nýjan leik hinn 7. mars síðastliðinn í fyrsta sinn síðan 5. nóvember 2014, að því er kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið .

Seðlabankinn keypti 1,5 milljarð króna daginn eftir að tilkynnt var um losun gjaldeyrishafta. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans, sem var gefin út síðastliðinn miðvikudag, kemur meðal annars fram að það væri of snemmt til að segja til um efnahagsleg áhrif síðustu skrefa við losun hafta.

„Of snemmt er að segja til um efnahagsleg áhrif síðustu skrefa við losun fjármagnshafta. Hugsanlegt er að betra jafnvægi skapist á milli inn- og útstreymis á gjaldeyrismarkaði en skammtímahreyfingar kunna að aukast eins og sést hafa merki um síðustu daga. Seðlabankinn mun eftir sem áður draga úr skammtímagengissveiflum þegar tilefni er til,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Hinn 5. nóvember 2014 keypti SÍ 926 milljónir íslenskra króna. Á þriðjudaginn síðasta keypti Seðlabankinn hins vegar 348 miljónir íslenskra króna og svo 1.427 milljónir króna á mánudaginn. Heildarvelta á gjaldeyrismarkaði á mánudeginum nam 6,4 milljörðum og þar af námu viðskipti Seðlabankans 22% af heildarveltunni.

Líklegt er talið að þessi krónukaup Seðlabankans sé í takt við áherslu bankans að draga úr skammtímasveiflum á markaði.