Sú ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að lækka meginvexti bankans um 0,5 prósentustig var í takt við hagtölur, að sögn Valdimars Ármann, framkvæmdastjóra sjóða hjá Gamma.

„Miðað við verðbólgu og verðbólguvæntingar var mjög eðlilegt hjá bankanum að lækka vexti. Menn gerðu hins vegar ekki allir ráð fyrir því að bankinn myndi stíga þetta skref. Það má því segja að orðið hafi ákveðin stefnubreyting hjá bankanum og það var hún sem kom á óvart.“

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að verðbólguhorfur hafi batnað frá síðustu spá Seðlabankans. Haldist gengi krónunnar óbreytt sé útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram á næsta ár. Samkvæmt spá bankans muni hún aukast þegar innflutningsverðlag hættir að lækka og áhrif gengishækkunar fjara út. Verðbólgan muni þó aukast hægar og verði ekki eins mikil og áður var spáð. Hækki gengið áfram verði hún að öðru óbreyttu minni en grunnspáin gerir ráð fyrir.