Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir í opnu bréfi til bankaráðs Seðlabankans að stjórnsýsla bankans minni á Kúbu norðursins. Í bréfinu er meðal annars gagnrýnt að bankaráð hafi ekki svarað fjölmörgum erindum fyrirtækisins þrátt fyrir fögur fyrirheit.

„Ég batt vonir við að eftir fund með bankaráði þann 27. nóvember sl. myndi málinu ljúka en ekki þyrfti að fara með það inn í sjöundu jól og áramót. Nú virðist formaður bankaráðs ætla að stýra málinu í þann farveg að bíða eftir hugsanlegu áliti umboðsmanns Alþingis í máli sem varðar ekki lyktir málsins á hendur Samherja, til þess að komast hjá því að taka sjálfur afstöðu til og afgreiða málið sjálfur. Eru það mér og starfsmönnum Samherja mikil vonbrigði að bankaráðsformaður hafi kosið að draga málið að ósynju. Er það nema von að manni detti í hug Kúba norðursins þegar hugsað er um stjórnsýslu seðlabankans í þessu máli, nú sem endra nær," segir í bréfinu.

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, sagði að hætta væri á að Ísland gæti orðið Kúba norðursins ef Icesave samningurinn væri ekki samþykktur árið 2009. Þá var Gylfi efnahags- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Bréfið í heild sinni má lesa hér .