*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Innlent 19. janúar 2018 10:25

Seðlabankinn taki upp útlánaþök

Þorvaldur Gylfason hagfræðingur segir verðbólgumarkmið Seðlabankans ekki koma í veg fyrir óhóflega skuldasöfnun heimilanna.

Ritstjórn
Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, leggur til að Seðlabanki Íslands taki upp útlánaþök til þess að hemja skuldasöfnun heimilanna. Þetta sagði Þorvaldur í Markaðstorginu á Hringbraut í vikunni.

„Peningastjórnin, það er að segja verðbólgumarkmið sem reynt er að ná með stýrivöxtum, er meingallað. Gallinn er sá að það dugir ekki til þess að hemja skuldasöfnun,“ segir Þorvaldur. Máli sínu til stuðnings vísaði Þorvaldur til þess að skuldir heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum væri 180% í Svíþjóð - sem einnig beitir verðbólgumarkmiði í stjórn peningamála - og 230% á Íslandi. Það sé hærra hlutfall heldur en fyrir hrun.

„Þetta er einföld áminning um það að peningastjórn með verðbólgumarkmiði dugir ekki til þess að hemja skuldasöfnun.“

Þorvaldur leggur til að í stað verðbólgumarkmiðs verði tekin upp útlánaþök sem haldi aftur af útlánaþenslu í fjármálakerfinu. 

„Ég hef mælt með því að það sé horfið aftur til gömlu ráða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hann hefur mælt fyrir allar götur frá því fyrir 1950, að hemja útlán með því að smíða útlánaþök. Kosturinn við það er sá að þannig ná menn utan um útlánaþenslu úr Seðlabankanum og eining útlánaþenslu úr viðskiptabönkunum. Eitt af því sem við lærðum í hruninu er það að viðskiptabankar geta átt mikinn þátt í því að búa til peninga með því að lána hver öðrum eða með því að endurlána erlend lán,“ segir Þorvaldur.

„Peningastjórnin eins og hún er nær ekki utan um þetta, en gömlu ráðin með útlánaþökum þau myndu gera það.“