*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 24. júní 2012 08:56

Seðlabankinn tapar 39 milljörðum á láninu til Kaupþings

Veðið í FIH sem talið var 670 milljóna evra virði lækkar þar sem söluverðmætið lítur út fyrir að enda í um 255 milljónum evra.

Ritstjórn

Samningurinn um viðbótargreiðslur til Seðlabankans vegna seljendalánsins hefði að hámarki geta numið 3,1 milljarði danskra króna, eins og áður hafði verið tilkynnt um. Í grein FinansWatch segir að um áramótin voru viðbótargreiðslur til Seðlabankans taldar nema um 95 milljónum danskra króna í bókhaldi FIH Holding, eignarhaldsfélaginu sem keypti FIH af Seðlabankanum.

Hversu mikið verður greitt til Seðlabankans á eftir að koma endanlega í ljós en ef marka má bankastjóra FIH virðist sem það verði lítið meira en hinir upprunalegu 1,9 milljarðar danskra króna sem greiddir voru við kaupin. Seðlabankinn eignaðist 99,89% hlut í danska bankanum FIH þegar hann tók hlutinn að veði fyrir þrautavaraláni til Kaupþings í október 2008 að upphæð 500 milljónir evra.

Tapa 39 milljörðum

Salan á hlutnum átti að tryggja endurheimtur þessarar lánveitingar og þegar tilkynnt var um söluna var söluverðmætið sagt vera allt að 670 milljónir evra. Því hefði Seðlabankinn getað fengið meira fyrir veðið en upphaflega var lánað til Kaupþings. Í dag lítur allt út fyrir að bankinn fái lítið sem ekkert umfram fyrstu greiðsluna frá eigendum FIH. 500 milljóna evra lánafyrirgreiðslan til Kaupþings, að frádreginni 255 milljóna evra greiðslu frá eigendum FIH, gerir það að verkum að Seðlabankinn tapar 245 milljónum evra á viðskiptunum. Það jafngildir tæplega 39 milljörðum íslenskra króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.