Trúnaðarupplýsingar innan úr danska stjórnkerfinu voru nýttar til að ná FIH bankanum í Danmörku úr höndum Seðlabanka Íslands á mun lægra verði en hann hafði upphaflega verið settur sem veð fyrir.

Veð fyrir lán til Kaupþings 2008

Seðlabankinn hafði eignast bankann eftir að hafa fengið veð í 99,89% hans í staðinn fyrir þrautavaralán uppá 500 milljónir evra sem veitt var Kaupþingi árið 2008. Jafngildir það 69 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi.

Danskir fjárfestar, þar með talið stærstu lífeyrissjóðir landsins, virðast ekki munu þurfa að greiða nema sem nemur um 37 milljörðum króna fyrir bankann þegar upp verður staðið.

Hefðu átt að fá kringum 100 milljarða

Þegar Seðlabankinn tilkynnti um söluna á bankanum árið 2010 hljóðaði fjárhæð hennar uppá 670 milljónir Evra sem á þáverandi gengi jafngilti 93 milljörðum íslenskra króna, en myndi jafngilda 103 milljörðum króna í dag.

Fjárfesting dönsku fjárfestanna mun hafa þrefaldast í verðgildi meðan íslenska ríkið mun tapa umtalsvert. Mun bankinn skila þeim sem keyptu bankann undir lok þessa árs um 80 milljörðum íslenskra króna í hagnað.

Samkvæmt fréttaskýringu danska blaðsins Finans um málið kemur fram hvernig bankinn var þvingaður úr höndum Seðlabankans af háttsettum mönnum í danska stjórnkerfinu og mikill þrýstingur lagður á Seðlabankann að samþykkja söluskilmála sem tryggðu að á endanum þurfti ekki að greiða 62% af upprunalegu kaupverði bankans. Þetta kemur fram í Viðskiptamogganum.