*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Innlent 21. september 2017 13:24

Seðlabankinn varð af milljörðum

Samkomulag sem gert var fyrir sölu Seðlabankans á hlut í Kaupþing hækkaði virði bankans mikið þegar það kom í ljós.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Kaupþing upplýsti ekki Seðlabankann um að hann hefði náð samkomulagi við Deutsche bank um 50 milljarða sáttagreiðslu, sem hefði hækkað virði eignarhlutar Seðlabankans í Kaupþingi. Deutsche bank og Eignarhaldsfélag Kaupþings náðu sátt í stóru ágreiningsmáli milli félaganna 7. október síðastliðinn sem leiddi til þess að virði Kaupþings rauk upp.

Eignarhaldsfélagið upplýsti þó ekki Seðlabankann um sáttina áður en hann seldi 6% hlut sinn í eignarhaldsfélaginu, en þegar samkomulagið varð opinbert hækkaði markaðsvirði hlutarins um fjóra til fimm milljarða að því er Morgunblaðið greinir frá.
Kaupendurnir voru vogunarsjóðir sem voru fyrir stórir eigendur í Kaupþingi og fengu þeir hlutinn á 19 milljarða íslenska króna.

Það var þó ekki gert fyrr en 14 vikum eftir söluna, eða í lok janúar á þessu ári, í krafti trúnaðarákvæða milli eignarhaldsfélagsins og Deutsche bank. Er trúnaðarsamkomulagið rökstutt með því að þýski bankinn sé skráður á markað og verði að halda samningnum leyndum vegna áhrifa bankans á efnahag Þýskalands og raunar Evrópu allrar.

Samt sem áður var greint frá samkomulaginu í fjárfestakynningu Deutsche Bank fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs, en þar kom fram að Kaupþing gæti ekki upplýst um samninginn vegna trúnaðarákvæðisins. „Seðlabankinn hafði engar upplýsingar um umrædd viðskipti Kaupþings og Deutsche Bank fyrr en þau voru gerð opinber mörgum vikum eftir að Seðlabankinn seldi skuldabréf sín á Kaupþing,“ segir í svari bankans um málið.