Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, vísar því á bug að gagnrýni á Vaðlaheiðargöng hafi verið hundsuð og segir áhættu við lánveitingu ríkissjóðs til að fjármagna göngin á sínum tíma hafa verið innan raunhæfra marka. Þetta segir hún í samtali við Morgunblaðið .

Greint var frá því í gær að stjórn Vaðlaheiðarganga telji að kostnaður við byggingu þeirra muni nema 12.450 milljónum króna. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að göngin myndu kosta 8.730 milljónir króna.

Þegar Oddný gegndi embætti fjármálaráðherra mælti hún fyrir frumvarpi um lánveitingu til þess að fjármagna Vaðlaheiðargöng á sínum tíma. „Það voru þarna í upphafi ákveðin varnaðarorð, þannig að við í fjármálaráðuneytinu létum gera ítarlega greiningu sem ráðgjafarfyrirtækið IFS gerði. Niðurstaðan var sú að áhættan væri innan raunhæfra marka,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir að í kjölfar þeirra greininga sem gerðar hafi verið hafi verið ákveðið að styrkja þyrfti eiginfjárstöðu Vaðlaheiðarganga úr 440 milljónum króna og upp í 600 milljónir króna. Segir hún jafnframt að öllum gangaframkvæmdum fylgi einhver áhætta og spurningin hafi verið hvort sú áhætta væri viðunandi eða ekki í þessu tilviki.

„Niðurstaða okkar var sú að hún væri viðunandi. Það er heldur ekki full vissa um hver lokaniðurstaðan verður. Það gæti farið svo að héðan í frá muni allar framkvæmdir ganga mjög vel og kostnaður jafnast út,“ segir Oddný.