Fyrrverandi útgerðarmaður Jóns Hákons BA segist ítrekað hafa gert athugasemdir við slæleg vinnubrögð þeirra sem skoðuðu björgunarbúnað bátsins. Hann segir að á meðan hann átti bátinn hafi það hent ítrekað að búnaður hafi ekki virkað, þrátt fyrir árlegt eftirlit.

Rætt var við Jón Þórðarson í Kastljósi í kvöld. Jón sem er skipstjóri gerði út Höfrung BA í rúm tuttugu ár, eða þar til árið 2014 að hann seldi bátinn, sem þá fékk nafnið Jón Hákon BA. Jón Hákon fórst í sumar við Aðalvík. Einn skipverja lést í slysinu en þrír aðrir björguðust naumlega.

Sjá viðtalið á vef RÚV.

Jón sagði í Kastljósi að saga björguanrbúnaðar skipsins væri um margt sérstök. Árið 2006 hefði komið í ljós að sleppigálgi bátsins hefði verið vitlaust búinn. Komið hefði í ljós að nemi í búnaðinum hefði snúið vitlaust og því hefði aldrei verið hægt að virkja sleppibúnaðinn handvirkt. Jón sagði að þrátt fyrir það hefði búnaðurinn verið skoðaður árlega af eftirlitsmönnum sem aldrei hefðu gert athugasemdir við búnaðinn.

Hann hefði þó verið lagfærður eftir þetta og hann gert athugasemdir við vinnubrögð skoðunaraðila bátsins við Samgöngustofu eftir þetta. Það sama hefði gerst árið 2011 þegar í ljós kom að björgunarbátur sem verið hafði um borð í Höfrungi til fjölda ára, virkaði ekki þegar áhöfn bátsins hugðist prófa hann. Þá var verið að skipta út björgunarbátnum fyrir annan nýrri. Í ljós hafi komið að lína sem draga á út til að blása út bátinn, hafi ekki verið tengd inni í lokuðu hylkinu. Þrátt fyrir þetta hafi báturinn verið skoðaður á hverju ári, fram að þessu, án athugasemda.

Jón kvaðst hafa sett sig í samband við sjóslysanefnd eftir slysið í sumar. Það hafi maðurinn sem lagaði sleppibúnað skipsins árið 2006 líka gert. Engin ástæða sé þó til að ætla að búnaðurinn hafi ekki verið í lagi núna. Enda hafi verið gengið úr skugga um það eftir að upp komst um gallann árið 2006. Jón segist engin viðbrögð hafa fengið frá sjóslysanefnd sem hafi sagst ætla að ræða við hann „fljótlega“ eins og hann orðaði það.