Í umsögn Bankasýslu ríkisins um frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir að Steingrím J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, hafi skort lagaheimild til að framselja eignarhluti ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka til slitabúa föllnu bankanna árið 2009. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu sem kveðst hafa umsögnina undir höndum.

Þar kemur fram að Bankasýslan vísi til álits Ríkisendurskoðunar um að samkomulag ríkisins við skilanefndir bankanna um yfirtöku á þessum eignarhlutum teldist til ráðstöfunar á eignum ríkisins og félli því undir 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Þess vegna hefði þurft að afla heimildar í fjárlögum fyrir árið 2010 til framsalsins.

Lögin voru samþykkt á Alþingi þann 22. desember 2009. Samningur um framsal eignarhlutarins í Arion banka átti sér hins vegar stað 3. september 2009 og hlutarins í Íslandsbanka þann 15. október sama ár.