Friðrik Pálsson, hótelstjóri Hótels Rangárs fullyrti að ferðaþjónustan í heild sinni óttist áhrif frekari styrkingar krónunnar. Þó ekki sé of seint að afstýra því þá gætum við verið að stefna í annað hrun ef ekkert verði gert að hans sögn.

Miklum áhyggjum var lýst yfir þróun vaxta- og gengismála hér á landi á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í vikunni að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Ekki farið að bera á afbókunum

Aðspurður segir Friðrik þó ekki að farið að bera á afbókunum ferðamanna beint vegna styrkingar á genginu. Hins vegar sé mikið spurt hvort vænta megi frekari gengisbreytinga og ferðamenn séu farnir að upplifa þónokkra hækkun á gistingu og veitingum.

„Fyrir hrun tókst okkur að telja sjálfum okkur og öðrum trú um að íslenska krónan væri sterkasti gjaldmiðill í heim og við kollsigldum hér allt með þeirri græðgisvæðingu sem fylgdi,“ sagði hann í viðtali við blaðið.

„Því miður erum við í mínum huga á svipaðri leið. Það er ennþá hægt að stoppa, ef við hugum ekki að því að stoffa fyrr en síðar þá getum við verið komin lengra en við teljum heppilegt þegar þar að kemur.“

Gríðarlega vond áhrif af vaxtastefnu

Friðrik er mjög gagnrýninn á vaxtastefnu Seðlabankans sem hann segir hafa gríðarlega vond áhrif á stöðu heimila og fyrirtækja í landinu og jafnvel hins opinbera líka.

„Það er ótrúlegt í þessu lokaða hagkerfi að leyfa sér að nota þetta tæki til að halda niðri verðbólgu,“ segir Friðrik og vísar í ítrekaða gagnrýni atvinnulífs og stjórnmálamanna á það sem hann kallar einræðistilburði bankans.

„...það er augljóslega farið að skaða útflutningsstarfsemina og áhuga fjárfesta á að koma að fyrirtækjum í útflutningi. Þau skilaboð eru send út í heim, eins og ferðaþjónustunni, að við séum aftur að verða gríðarlega dýrt land.

Engin vísindi á bak við geðþóttaákvarðanir

Segir hann ákvarðanir Seðlabankans vera gerðar af geðþótta og engin vísindi liggja þar að baki.

„Það þarf að stoppa gengishækkunina og festa gengið eins og það er í dag, og lýsa því yfir að það verði fast um ákveðinn tíma. Það gæti bjargað því sem bjargað verður,“ segir Friðrik og segir spár um 10-15% hækkun á næstu 6-8 mánuðum vera alvarleg skilaboð til fyrirtækja.

„Ég teldi æskilegt að lífeyrissjóðirnir keyptu þennan umframgjaldeyri og lærðu af norska olíusjóðnum, þannig að hægt sé að skapa þann varasjóð erlendis sem við þurfum á að halda.“