Donald Trump, forseti Bandaríkjanna lét hafa það eftir sér að enginn í heiminum sé hæfari en dóttir sín, Ivanka Trump, til að taka við af Nikki Haley sem fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu Þjóðunum. Þetta kemur fram á vef Independent .

Í gær var greint frá því að Nikki Haley hafi sagt upp störfum sem fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu Þjóðunum. Hún mun láta af störfum í lok þessa árs.

Forsetinn líkti dóttur sinni við dínamít þegar hann ræddi við fjölmiðlamenn fyrir utan Hvíta húsið. Hann segist þó ekki geta ráðið dóttur sína í starf fastafulltrúa sökum þess að þá yrði hann sakaður um klíkuskap.

Dóttir forsetans sagði í kjölfarið í færslu á Twitter síðu sinni að hún sé sannfærð um að faðir sinn muni tilnefna einhvern framúrskarandi til að koma í stað Haley en útilokaði jafnframt að það yrði hún sjálf.