*

laugardagur, 18. ágúst 2018
Innlent 12. mars 2018 13:27

Segir enn raunhæft að þvera Þorskafjörð

Í stað vegagerðar eftir endilöngum landnámsskógi á Vestfjörðum er þverun við fjarðarmynni sögð hagkvæmari en áður.

Ritstjórn
Þorpið Reykhólar í Reykhólahreppi kæmist í alfaraleið ef Þorskafjörðurinn yrði þveraður, en sveitarfélagið samþykkti nýlega lagningu vegar í gegnum ósnortinn landnámsskóginn Teigskóg við norðarverðan Þorskafjörðinn.
Hörður Kristjánsson

Rætt er við Bjarna Maríus Jónsson um hugmynd hans um að í stað þess að eyðileggja Teigsskóg með vegi eftir honum endilöngum sé hægt að stytta leiðina til sunnanverðra Vestfjarða umtalsvert með þverun Þorskafjarðar í Morgunblaðinu í dag.

Í síðustu viku samþykkti sveitarstjórn Reykhólshrepps að Vestfjarðarvegur muni liggja í gegnum Teigsskóg sem teygir sig eftir mjórri landræmu milli fjalls og fjöru við norðanverðan Þorskafjörðinn.

„Það hefði ekkert þurft að fara í gegnum skóginn,“ segir Bjarni en þverun fjarðarins yrði styttri en 3,7 km löng Gilsfjarðarbrúin ásamt uppfyllingu.

„Þessi leið hefði valdið minni skaða að mínu mati og um leið hefðu verið slegnar 2-3 flugur í einu höggi; þarna hefðu orðið til betri samgöngur, minna náttúrurask og þessi framkvæmd hefði meiri samfélagsleg áhrif fyrir svæðið.“

Um er að ræða eina af fáum ósnortnum strandlengjum Vestfjarða og stærsta landnmámsskóg landshlutans, sem teygir sig milli fjalls og fjöru líkt og var við landnám í landshlutanum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma lagði Bjarni Maríus fram tillögu um að þvera fjörðinn um 2,5 kílómetra leið frá Reykjanesi yfir í Skálanes, en við að fara þá leið myndi byggðin í Reykhólum komast í alfaraleið.

Jafnframt lagði Bjarni Maríus fram hugmyndir um að í leiðinni yrðu sjávarföll í firðinum virkjuð, en aðstæður eru taldar mjög heppilegar og gæti orkan sem félli þannig til, dugað allri orkuþörf Vestfjarða.

„Þarna er mesti munur á flóði og fjöru á Íslandi, alveg upp í sex metra,“ segir Bjarni og vísar í Breiðafjörð annars vegar og Hvammsfjörð hins vegar.

„Það virðist vera komin önnur tækni núna. Það er búið að finna betri ferla nú og nýting hefur batnað töluvert. Það er því vel hugsanlegt að skoða þetta aftur, enda gæti þessi framkvæmd nú borgað sig upp mikið fyrr en ella. Það er örugglega ekki of seint að ætla að skoða þennan möguleika. Ég er viss um að það er hægt að framkvæma þetta á methraða. Í þessari nýju tækni er mikið um forsteyptar einingar sem þessar túrbínur eru settar í og mikið af búnaði er ofansjávar. Þetta er enn mjög áhugaverður kostur.“

Fleiri fréttir um mögulegt vegastæði Vestfjarðarvegar: