Erfitt er að taka fjölskylduna með í nokkurra mánaða tónleikaferðalag um heiminn. „Það hefur alltaf verið erfitt og hefur ekkert breyst í raun og veru. Alveg frá byrjun hefur þetta verið erfitt og þessi tónleikaferðalög eru auðvitað mislöng, fer eftir plötunum. Núna fyrir Valtara og Kveik þá var þetta svolítið langt, eitt og hálft ár,“ segir Georg Holm í Sigur Rós.

Georg var í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Tilefnið var að hljómsveitin fagnaði 20 ára afmæli á dögunum.

Hljómsveitarmeðlimir eru komnir fast að miðjum aldri eða hér um bil - alla vegna margir komnir með fjölskyldur. Georg var spurður út í það hvernig er að vera fjölskyldufaðir á tónleikaferðalagi.

Hann segir það erfitt. „Ég held að við höfum reiknað út að á síðasta ári þá vorum við samanlagt átta mánuði að heiman. Það tók svolítið á börnin, maður sá það á þeim. Maður reynir eftir bestu getu að fá fjölskylduna með út,“ segir Georg þó svo að það sé ekki alltaf hægt enda þurfi börnin til að mynda að mæta í skóla á veturna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .