Steinþór Skúlason, varaformaður Landssamtaka sláturleyfishafa, gagnrýnir bréf sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda, ritaði og sendi stjórnvöldum. Hann segir það vera byggt á röngum upplýsingum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá kemur fram í umræddu bréfi kemur fram að FA telji að innflutningsfyrirtæki þurfi að leita réttar síns vegna innflutningstakmarkana sem gera ráð fyrir því að kjöt sé reiknað með beini.

Nýverið tilkynntu stjórnvöld hvaða stuðla þau hyggðust nota til að meta útreikning á innflutningskvóta. Í tilkynningu á vef atvinnu- og nýsköpunarmálaráðuneytisins kom fram að útreikningur á magni tollkvóta við innflutning skuli nú vera miðað við ígildi kjöts með beini líkt og alþjóðlegar skuldbindingar séu sagðar kveða á um.

Steinþór segir að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið ætli ekki að skerða innflutning með breytingum á stuðlunum. Þetta sé gagnkvæm aðgerð sem er ætlað að samræma stuðla Íslands og Evrópusambandsins.

Steinþór fullyrðir að það sé enginn að hafa neitt af neinum með þessari aðgerð heldur sé aðeins um að ræða samræmda aðgerð á gagnkvæmum samningi. Hann segir mikilvægt að gæta hagsmuna Íslands í þessum efnum en ekki aðeins heildsala.