Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í færslu á Facebook síðu sinni að hún teldi fyrirhugaða fjölgun aðstoðarmanna ráðherra vera óþarfa. Hún segir að einfaldari leið til að aðstoða þingmenn væri að fjölga sérfræðingum á nefndarsviði að undangegninni þarfagreiningu. Hún bendir á að það að ráða nýja aðstoðarmenn muni kosta ríkissjóð 200 milljónir og segir jafnframt að á þessu ári hafi aðstoðarmönnum ráðherra fjölgað í 22 og hafi sú aðgerð kostað 153 milljónir.

„Enginn þingflokkur á Alþingi virðist vera á móti þessu. Allir sammála. Samtryggingin algjör. Þingflokkarnir geta þannig komið fleiri flokksmönnum sínum á jötuna, því ráðningamálin verða væntanlega í höndum hvers þingflokks fyrir sig. Þetta er ótækt," segir Jóhanna í færslunni.

Færslan í heild sinni:

Aðstoðarmönnum ráðherra fjölgaði á þessu ári í 22 og kostaði sú viðbót ríkissjóð 153 milljónir. Nú á að fjölga aðstoðarmönnum þingflokka um 17 sem kostar yfir 200 milljónir króna. Enginn þingflokkur á Alþingi virðist vera á móti þessu. Allir sammála. Samtryggingin algjör. Þingflokkarnir geta þannig komið fleiri flokksmönnum sínum á jötuna, því ráðningamálin verða væntanlega í höndum hvers þingflokks fyrir sig. Þetta er ótækt. Ef þingmenn vantar aðstoð við lagasmíð og önnur þingmál þá er einfaldasta leiðin að Alþingi fjölgi sérfræðingum á nefndasviði að undangenginni þarfagreiningu. Þannig yrði ráðningum hagað í samræmi við þörf á hverju málefnasviði fyrir sig og kynjasjónarmiða gætt í stað geðþótta þingflokkanna.