Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Sósíaldemókrata í Svíþjóð, segir að háir skattar, sterk verkalýðsfélög og jöfnuð undirstöðu velgengni í alþjóðavæddum heimi í viðtali við Bloomberg.

Andersson hefur hækkað skatta og eytt meira í velferðarkerfið síðan flokkur hennar komst til valda árið 2014. Hagvöxtur í Svíþjóð mældist ríflega 3 prósent á síðasta ári.

Í viðtalinu er sænsku leiðinni líst sem andstæðu þess sem að Donald Trump hyggst gera í Bandaríkjunum. Hún segir að velgengnin sé þremur hlutum að þakka: „Hátt atvinnustig, velferðarkerfið og endurdreifingu fjármagns,“ segir hún. Skattbyrðin í Svíþjóð er um 43 prósent samkvæmt tölum OECD samanborið við 26 prósent skattbyrði í Bandaríkjunum.

Þó eru ekki allir par sáttir við háa skattbyrði. Til dæmis hafa stór fyrirtæki á borð við Nordea bankann og nýsköpunarsenan, sem er leidd af Spotify, kvartað sáran yfir háum sköttum. Andersson viðurkennir þó að af sjálfsögðu hefðu skattar neikvæð áhrif. „Allir skattar hafa neikvæð áhrif, en það er hægt að nota peningana í jákvæð verkefni og það er nákvæmlega það sem sænska módelið sýnir fram á. Þú getur haft háa, skatta, hátt atvinnustig og hagvöxt í sömu andránni.“