Hæstiréttur finnur að símhlerunum í dómi sínum á fimmtudag í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans. Með því að hlera sakborning í málinu rétt eftir skýrslutöku hjá lögreglu hafi verið brotið gegn rétti hans um réttláta málsmeðferð.

Orðrétt segir í dómnum:

„Aftur á móti eru meðal málsgagna upptökur af símtölum og öðrum samskiptum ákærðu við aðra skömmu eftir að þeir höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem þeir höfðu réttarstöðu sakborninga og var því óskylt að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun, sem þeim var gefin að sök, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Með því að hlusta á símtöl ákærðu við þessar aðstæður, þótt það væri gert á grundvelli dómsúrskurða, var brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.“

Í pistli á Pressunni segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari að þarna hafi Benedikt Bogason, þáverandi héraðsdómari og núverandi hæstaréttardómari, hafi gerst sekur um að brjóta gegn rétti sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar með því að veita dómsúrskurð um símhlustunina við þessar aðstæður.

Jón Steinar segir m.a. í pistli sínum:

Sumarið 2014 urðu umræður í blöðum um dómaraverk Benedikts Bogasonar, nú hæstaréttardómara, meðan hann var ennþá „bara“ héraðsdómari. Þá hafði hann látið lögreglunni í té dómsúrskurð sem heimilaði símhlustun hjá manni sem var verið að sleppa úr gæsluvarðhaldi.

Það var eins og lögreglan hefði viljað heyra manninn segja eitthvað í símann sem hann hefði ekki viljað skýra henni frá á grundvelli reglunnar um að sökuðum mönnum sé heimilt að neita að svara spurningum lögreglu. Heimildin virðist hafa verið auðfengin hjá Benedikt héraðsdómara.