Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, hefur um langt skeið verið afar gagnrýnin á íslensku krónuna og hefur meðal annars talað fyrir einhliða upptöku á kanadískum dollar.

Fyrr í kvöld flutti hann erindi á fundi Viðreisnar um vanda hinnar óstöðugu krónu, þar sem hann sagði hagfræðinga Seðlabanka Íslands vera fasta í hinni svokölluðu Taylor jöfnu.

Jafnan er nefnd í höfuðið á hagfræðingnum John B. Taylor, en með henni er leitast við að lágmarka bæði verðbólgu og hagsveiflur.

Hún segir til um hversu háir stýrivextir skuli vera, sem fall af væntu fráviki frá verðbólgumarkmiði og langtíma hagvexti.

Gjaldmiðlum fækkar

Í erindi sínu fór Heiðar yfir sögu gjaldmiðla og benti þá á að þeir hafi í gegnum mannkynssöguna verið bundnir við góðmálma.

Fyrir 46 árum hafi sú stefna þó breyst rækilega, en í dag eru flestir gjaldmiðlar einungis bundnir við traust á þjóðríkjum og seðlabönkum.

Jafnframt benti Heiðar á þá staðreynd að gjaldmiðlum fari sífellt fækkandi og að viðskiptakostnaður milli stærri gjaldmiðla hafi lækkað verulega á síðustu árum. Þar hafa tækniframfarir einnig spilað sitt hlutverk.

Efast um vaxtalækkun

Heiðar segir Seðlabanka Íslands tala í miklum vaxtahækkunartón og efast um að vextir á Íslandi muni lækka til skamms tíma.

Sú hagfræði sem Seðlabanki Íslands byggir á, er samkvæmt Heiðari úrelt. Að hans mati getur lítið hagkerfi eins og Ísland ekki bæði haft sjálfstæða peningastjórn og fjárlist flæði fjármagns.

Heiðar telur jafnframt að lög sem eiga að koma í veg fyrir vaxtamunaviðskipti, muni reynast illa, enda eru erlendir fjárfestar byrjaðir að birtast á hluthafalistum fasteigna-, trygginga-, og fjármálafyrirtækja.

Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að notfæra sér mikið lánsfjármagn (gírun) í rekstri og því sækjast erlendir fjárfestar í vaxtamun í þessum félögum. Þar með eru lögin ekki að koma í veg fyrir vaxtamunaviðskipti, heldur er fjármagni einfaldlega beint í aðra átt.

Krónan tól embættismanna

Í erindi sínu reyndi Heiðar að komast að því hverjir hafi mesta hagsmuni af því að vera með örmynt.

Oft er talað um krónuna og tilvist hennar í sambandi við útflutningsfyrirtæki, sem njóta góðs af því þegar hún er veik.

Heiðar segir krónuna þó ekki vera vin útflutningsgreinanna, enda sést það að útgerðarfélög greiði laun í hlutfalli við gengi erlendra gjaldmiðla.

Jafnframt gera ferðaþjónustufyrirtæki á borð við Icelandair nú upp í erlendum myntum og finna fyrir því þegar að kostnaðarhlutföll þeirra hækka, við styrkingu krónunnar.

Heiðar sagði iðnað, á borð við fiskvinnslur, líða hvað mest fyrir tilvist krónunnar, enda er sú starfsemi bundin á landi.

Þegar öllu er á botninn hvolft, telur Heiðar krónuna því vera tól embættismanna, sem vilja geta gripið í prentvélarnar þegar hlutirnir fara úrskeiðis.

Þegar peningarnir eru þynntir út, segir hann kostnaðinn enda hjá almenningi og fyrirtækjum í landinu.

Heiðar er því samkvæmt erindi sínu hlynntastur frjálsu vali gjaldmiðla, einhliða upptöku annars gjaldmiðils eða myntráði.

Erindið í heild sinni má nálgast hér :

Þriðjudagsfundur í Ármúlanum

Vandi hinnar óstöðugu krónu.

Posted by Viðreisn on Tuesday, March 28, 2017