Í gær hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu Hörpu að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar frá 30. maí 2012 verði ógiltur. En samkvæmt úrskurðinum átti Harpa að greiða 355 milljónir króna í fasteignagjöld á árinu 2012. Þessu greinir Kjarninn frá.

Á síðustu þremur árum hefur Harpa greitt um einn milljarð króna í slík gjöld og á að borga yfir 380 milljónir í þau í ár. Sú álagning mun standa. Rúmur þriðjungur af rekstrartekjum Hörpu fer í fasteignagjöld. Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir húsið ekki geta greitt svona háa upphæð lengur.

Fasteignamat Hörpu var reiknað 17 milljarðar króna árið 2011, og var þar miðað við byggingakostnað þess. Því þurfti húsið að borga Reykjavíkurborg 355 milljónir króna í fasteignagjöld það árið. Tekjur Hörpu voru 492 milljónir króna árið 2011 og 645 milljónir króna árið 2012, en miðað við fasteignamatið var ljóst að þorri rekstrartekna sem komu inn vegna útleigu á húsinu færi í fasteignagjöld. Harpa vildi ekki sætta sig við fasteignamatið og kærði það til yfirfasteignamatsnefndar.

Í kærunni kemur fram að stjórnendur Hörpu telji að fasteignamat hússins hefði átt að vera 6,8 milljarðar króna og fasteignagjöld í samræmi við það. Fasteignamatið ætti ekki að taka mið af byggingakostnaði heldur tekjumöguleikum. Yfirfasteignamatsnefnd komst að þeirri niðurstöður fyrir nærri þremur árum síðan að fasteignamatið ætti að halda, og Harpa ætti að greiða fasteignagjöldin. Þá ákvað Harpa að leita til dómstóla og reyna að fá úrskurð yfirfasteignamatsnefndar ógildan, en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri kröfu í gær.

Þrefalt hærri fasteignagjöld

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir Hörpu vera að borga þrisvar til fjórum sinnum meira í fasteignagjöld á fermeter en meðal annars Kringlan, Smáralind og Leifsstöð. Hann segir í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms þurfi að meta stöðuna en það sé alveg jafn ljóst nú og var áður, þótt veltan hjá Hörpu hafi aukist mikið, að þessi rekstur standi ekki undir þessum álögum. Hann segir að það verði skoðað gaumgæfilega hvort dómi héraðdóms verði áfrýjað, en niðurstaða liggi þó ekki fyrir.