Björn Gíslason, varaborgarfulltrúi og stjórnarmaður í stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar, heldur uppi harðri gagnrýni á hverfisráð borgarinnar í grein sem birtist í nýjasta tölublaði Árbæjarblaðsins . Þar lætur Björn að því liggja að Dagur B. Eggertsson noti hverfisráðin sem pólitíska skiptimynt.

Björn, sem er jafnframt frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins og verðandi borgarfulltrúi samkvæmt nýjustu könnun Viðskiptablaðsins , segir að kosið sé í hverfisráðin úr Ráðhúsinu „í stað þess að íbúar í hverfinu fái sjálfir að kjósa sína fulltrúa í ráðin.“

Kosningin fer eftir pólítískum línum

Hann segir þetta verða til þess að kosningin fari eftir pólitískum línum  og dæmi séu um að formenn hverfisráðanna „búi ekki í því hverfi þar sem þeir gegna formennsku. Til að mynda býr formaður hverfisráðs Vesturbæjar, Sverrir Bollason, í Árbænum. Eðlilegra hefði verið að umræddur Sverrir hefði setið fyrir flokk sinn, Samfylkinguna, í hverfisráði Árbæjar og sinnt sínu eigin hverfi,“ segir Björn í grein sinni.

„Samkvæmt núgildandi reglum sem gilda um val á fulltrúum og formönnum í hverfisráðin gætu Árbæingar átt von á því að næsti formaður hverfisráðs Árbæjar komi úr allt öðru hverfi borgarinnar, t.d. úr 101.“

Fá tæplega 105 þúsund fyrir einn fund í mánuði

Þá segir hann enn fremur að hverfisráðin eigi ekki að vera notuð sem pólitísk skiptimynt. „Hverfisráðin eiga ekki að vera notuð sem pólitísk skiptimynt fyrir gæðinga stjórnmálaflokkanna,“ segir Björn.

„Borgarbúar yrðu eflaust hissa ef þeir vissu hverjar launagreiðslur fyrir formennsku og setu í hverfisráðunum væru - sem eru tíu talsins - og hversu oft þau funda í hverjum mánuði. Almennum launamanni þætti það dágóð laun að fá 104.846 kr. fyrir einn fund í mánuði“