Arnar Sigurðsson gagnrýnir Kára Stefánsson harðlega fyrir grein sem birtist eftir Kára nýlega í Morgunblaðinu .

Arnar segir að Kári geti ekki enn státað af gagnlegri vísindalegri uppgötvun en það geri hann ekki að ómerkari sérfræðingi á sínu sviði fyrir vikið og hans tími mun vafalítið koma. Arnar segir þó að það að Kári skuli ekki hafa uppgötvað muninn á tilgátu og vísindalegri staðreynd geti gert honum erfitt fyrir.

Arnar segir að Kári átti sig ekki á að ríkið niðurgreiði verslunarrekstur fyrir víninnflytjendur. Einnig að það sé nýlunda að sjúkdóma megi lækna eða fyrirbyggja með einni gerð af verslunarrekstri umfram aðra. Arnar segir að Kári telji að ef afgreiðslumaður á kassa sé meðlimur í BSRB séu allar líkur á að þeir sem eru með áfengissýki geti haft stjórn á neyslu sinni.

Orðrétt segir Arnar:

„Þar sem Kári fer alfarið út af sporinu er svo þegar kemur að fullyrðingu hans á borð við: „ein af grundvallarkenningum markaðsfræðinnar að eftir því sem vöru er komið fyrir á fleiri metrum af hillum í fleiri verslunum þeim mun meira seljist af henni“. Hér er á ferðinni kunnugleg aðferðafræði ríkisforsjárhyggjusinna að búa til kenningar sem eiga sér enga stoð nema í hugarheimi þeirra sjálfra. Sami hræðsluáróður og var viðhafður gegn bjór, gegn frjálsum afgreiðslutíma veitingastaða og gegn lokun mjólkurbúða (álit borgarlæknis var að mjólk væri ekki eins og hver önnur matvara). Samkvæmt ályktunum Kára hlýtur að vera beint samhengi á milli misnotkunar á lyfjum og hillumetra í apótekum. Sömuleiðis hlýtur að vera umhugsunarefni, þar sem mun fleiri deyja ótímabærum dauðdaga vegna ofneyslu á matvælum, hvort ekki sé rétt að fækka hillumetrum í matvöruverslunum.“

Arnar segir að í grein sinni hafi Kári ekki vitnað í heimildir fullyrðingu sinni til stuðnings og nefnir fullyrðingu Kára um að búið sé „að gera tilraunina í mörgum löndum í kringum okkur og alls staðar þar sem áfengi hefur verið flutt inn í venjulegar verslanir hefur neysla þess aukist verulega.“

Um þetta segir Arnar: „Staðreynd málsins er hinsvegar að ekkert dæmi er til um vestrænt samfélag þar sem ríkiseinokun hefur verið aflögð og neysla breyst, hvort heldur er til betri eða verri vegar. Upplognar fullyrðingar á borð við þessa telja forskrúfaðir ríkisforsjárhyggjusinnar að verði á endanum sannar ef þær eru þuldar nógu oft. Auðvitað er það þó svo að hvorki er hægt að þakka viðskiptafrelsi í suðrænni löndum Evrópu fyrir minnkandi áfengisneyslu, frekar en að hægt sé að kenna ÁTVR um aukna neyslu hér á landi.

En talandi um tölfræði og reynslu. Nú eru reknar 48 áfengisverslanir um land allt, sumar hverjar inni í barnafataverslunum, bensínstöðvum, já og matvöruverslunum, samkvæmt markmiði hins opinbera um að „þétta net verslana um land allt“.

Stórnotendur fá svo fría heimsendingu og börn og unglingar fá vínsmakk í sjálfsafgreiðslu í Leifsstöð. Hugsanlega benda einhverjir á að fjölgun útsölustaða sé einmitt sönnun þess að aukið aðgengi þýði aukna neyslu. Sú kenning byggist hinsvegar á þeirri forsendu að fjölgun ferðamanna um ca. eina milljón manns komi eingöngu úr röðum bindindismanna annarra landa.

Eina stóra dæmið um markverða frelsisvæðingu tengda áfengi á Vesturlöndum er bann við opnun eftir kl. 23 á krám í Bretlandi. Ríkisforsjárhyggjusinnar þess lands boðuðu auðvitað ragnarök í framhaldinu, því auðvitað voru það ekki bara »hillumetrarnir« heldur afgreiðslutímarnir sem myndu valda aukinni neyslu! Niðurstaðan tíu árum síðar er hinsvegar þveröfug.“