Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir nauðsynlegt að í boði sé fyrir sjúklinga hér á landi að sækja læknisþjónustu erlendis.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um eru nú fimm sjúklingar í Svíþjóð vegna liðskiptiaðgerðar sem Sjúkratryggingar Íslands vildu ekki greiða fyrir hjá Klíníkinni í Ármúla, en vegna EES reglna þurfa tryggingarnar að greiða fyrir aðgerðirnar í Svíþjóð, sem kosta allt að 90% meira með öllu.

„Ég sé ekki betur en með samningum við einkaaðila mætti veita þessum sjúklingum sambærilega þjónustu með ódýrari hætti en þarna er verið að gera,“ er haft eftir Birgi í Morgunblaðinu.

„Aðalatriðið í málinu hlýtur að vera að sjúklingar eigi kost á mikilvægri og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu með sem hagkvæmustum hætti. Það á að vera ráðandi í því hvaða leiðir eru farnar frekar en einhverjar kreddur um að ekki megi semja við einkaaðila.“