*

miðvikudagur, 16. janúar 2019
Innlent 25. janúar 2015 13:39

Segir nauðsynlegt að fjölga virkjunarkostum

Á fimmtudag var lagt til að færa fjóra virkjunarkosti úr biðflokki í nýtingarflokk.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að fjölgun virkjunarkosta sé nauðsynleg til þess að ljúka kísilverksmiðju í Helguvík og sólarkísilverksmiðju á Grundartanga.

Á fimmtudag lagði Jón, sem er formaður atvinnuveganefndar Alþingis, til að fjórir virkjunarkostir yrðu færðir úr biðflokki í nýtingarflokk. Áformin voru harðlega gagnrýnd í þinginu í kjölfarið og sögðu stjórnarandstæðingar meðal annars að þetta færi gegn lögum um rammaáætlun.

Jón sagði í þættinum Sprengisandi í morgun að mörg verkefni væru framundan sem krefðust þess einfaldlega að virkjunarkostir yrðu færðir í nýtingarflokk. Ekki væri hægt að ganga frá raforkusamningum við fyrirtæki vegna þessara verkefna, á meðan engar virkjanaframkvæmdir væru fyrirhugaðar.

Katrín Júlíusdóttir, sem var jafnframt gestur á Sprengisandi, gagnrýndi fyrirætlanirnar og sagði að með því að taka þessa pólitísku ákvörðun væri verið að taka fram fyrir hendurnar á faglega skipaðri verkefnastjórn um rammaáætlun.