Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, segir að nýtt kalt stríð sé hafið. Hann segir Rússlandi ítrekað vera lýst sem mikilli ógn gagnvart NATO, Bandaríkjunum eða öðrum ríkjum. Þetta kom fram í ræðu sem hann hélt í München í morgun.

"Stundum velti ég því fyrir mér hvort árið sé 2016 eða 1962," sagði Medvedev. Hann segir það munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Vesturlönd ef þau vinna ekki með Rússlandi vegna ástandsins í Sýrlandi og víðar.

Þá spurði hann jafnframt hvort þörf væri á þriðja upplausnarástandinu í heiminum til að lönd heims átti sig á mikilvægi samvinnu frekar en átaka. Þessi orð lét hann falla eftir að hafa talað um seinni heimsstyrjöldina.

Hann segir Vesturlönd hafa vikið frá þeirri heimsmynd sem var komið á eftir seinni heimsstyrjöldina og hefur viðhaldið stöðugleika undanfarin sjötíu ár.