Hefði verið vilji hjá stjórnvöldum og borgarstjórn Reykjavíkur að taka þátt í því að halda hátíðina MTV Music Awards hér á landi árið 2006 má ætla að virði fjölmiðlaathyglinnar hefði verið átta til níu milljarðar króna. Þetta fullyrðir Björn Steinbekk, sem stóð fyrir því á sínum tíma að hátíðin verði haldin hér.

Björn var var nokkuð áberandi í fjölmiðlum á sínum tíma þegar til stóð að halda MTV Music Awards hér á landi. Eftir að hafa kynnt hugmyndina fyrir viðeigandi aðilum og unnið að verkefninu í lengri tíma þá leit allt út fyrir að hátíðin gæti orðið að veruleika. Árið 2004 stóð valið á milli tveggja staða, Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Reykjavík varð fyrir valinu. Stjórnvöld höfðu hins vegar engan áhuga á málinu.

Ríki og borg þurftu að fylgjast að

„Það er vaninn að ríki og borg komi með, eins og við erum að gera í dag með kvikmyndir og fleira, að boðin sé endurgreiðsla, skattafrádráttur eða annað slíkt. Við tókum þessi skilaboð frá MTV og fórum með heim. Settumst svo niður og funduðum með aðilum hér heima. Við fundum strax að það var ekki mikill vilji hjá ríki og borg að vinna þetta áfram. Við áttum skýrslu um hátíðina sem var haldin í Edinborg 2003 og notuðum hana. Hún sýnir margfeldisáhrifin og á þessum tímapunkti, ef Reykjavík hefði haldið hátiðina, þá hefði virði fjölmiðlaathyglinnar verið átta til níu milljarðar. Það er það sem var búið að framreikna fyrir Edinborg,“ segir Björn og nefnir til sögunnar þá athygli sem hátíðin fær í útvarpi, sjónvarpi og annars staðar víða um allan heim.

„Þórólfur Árnason var borgarstjóri á þessum tíma og átti ég fund með honum. Þetta var mikill markaðsmaður, hafði gert Tal að því sem það var og ég hafði miklar mætur á honum. Á fundinum segir hann blákalt að borgin hafi ekkert upp úr þessu og ætli ekki að setja krónu í þetta. Mér fannst það ótrúleg skammsýni og finnst það ennþá. Við fórum líka í iðnaðarráðuneytið og menntamálaráðuneytið. Við vorum að tala um 100 milljónir íslenskra króna á þessum tíma. Þetta var enginn peningur miðað við ágóðann af verkefninu. Á endanum fáum við bréf frá MTV þar sem segir að Reykjavík hafi orðið fyrir valinu til að halda MTV Music Awards,“ segir Björn. Hann fór á fund ráðherra. „Þetta endaði á því að hvorki Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, né Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra vildu styðja við bakið á verkefninu. Þetta fékk ekki hljómgrunn,“ segir Björn sem bendir á að önnur verkefni hafi hins vegar hlotið umtalsverða styrki. „Það sem var grátlegast að okkar mati var að þremur mánuðum eftir að okkur er tilkynnt að það yrðu engir styrkir er Sinfóníuhljómsveit Íslands send til Bandaríkjanna í fimm vikna tónleikaferð, styrkt af ríkinu fyrir mun hærri upphæð.“

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .