Stjórnarformaður Jarðvarma slf., félags í eigu íslensku lífeyrissjóðanna, sem nýtti minnihlutaeign sína í HS Orku til að stöðva sölu á hlut orkufyrirtækisins í Bláa lóninu segir tilboðið hafa verið undir verðmæti hlutarins. Tilboðið hljóðaði upp á 11 milljarða sem gert hefði heildarverðmæti Bláa lónsins um 37 milljarðar.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær stöðvuðu lífeyrissjóðirnir söluna á 30% hlut HS Orku til sjóða í stýringu Blackstone, þrátt fyrir vilja meirihlutaeigandans Magma Energy, sem er í eigu kanadíska orkufyrirtækisins Alterra.

„Við teljum það verðmætara en þau tilboð sem komu fram,“ segir Davíð Rúdólfsson stjórnarformaður Jarðvarma í samtali við Morgunblaðið. „Við fórum vandlega yfir málið og okkar mat var að tilboðin endurspegluðu ekki virði Bláa lónsins.“ Telur Davíð ólíklegt að hluturinn verði seldur á næstunni. „Ég held að þessum kafla sé lokið.“